SAMSTARFIÐ - Niðurstöður könnunar okkar
Við viljum byrja að þakka öllum þeim sem tóku þátt í könnuninni okkar fyrr á árinu þar sem við leituðumst við að finna hver áhersluatriði okkar í komandi kjarasamningum ættu að vera. Könnunin var framkvæmd fyrir SAMSTARFIÐ, stéttarfélögin FOSS Stéttarfélag í almannaþjónustu, STAG Starfsmannafélag Garðabæjar, STH Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, SfK Starfsmannafélag Kópavogs, STAMOS Starfsmannafélag Mosfellsbæjar og STFS Starfsmannafélag Suðurnesja. Helstu niðurstöður könnunarinnar eru hér dregnar saman en ítarlegri niðurstöður geta félagsmenn rýnt í á skrifstofum félaganna.
Hvernig er launastaðan?
Að meðaltali vinna félagsmenn okkar 37 tíma á viku og með 344.695 krónur í grunnlaun fyrir skatt. Langflestir eða 41% þátttakenda voru með undir 350.000 krónur í heildarlaun á mánuði. Það gefur að skilja að 59% svarenda voru frekar ósátt eða mjög ósátt við laun sín. Flestir félagsmenn, eða 43%, telja að lágmarkslaun ættu að vera 400 þúsund eða hærri. Ljóst er því að eitt af okkar baráttumálum er að hækka laun félagsmanna okkar og leggja áherslu á hækkun lægstu launa.
Hversu mikið vinnum við og það undir álagi?
Eins og fyrr greinir þá vinna félagsmenn okkar að meðaltali 37 tíma á viku og eru flestir í dagvinnu. En að jafnaði vinna þau sem eru í fullu starfi 42 stundir á viku. Félagsmenn okkar telja mjög mikilvægt að samið verði um styttingu vinnuvikunnar. Það er álag á félagsmönnum í starfi og telja 37% svarenda sig vera undir miklu eða mjög miklu álagi í vinnu og virðist þar litlu skipta hvaða menntun þau hafa, í hvaða starfstétt þau eru eða hvort þau vinna hjá ríki eða sveitarfélagi. Mest var vinnuálagið þó hjá starfsfólki menntastofnana; leikskóla, skóla og frístundaheimila.
Hverju eigum við að berjast fyrir?
Fram kom í könnuninni að félagsmenn okkar krefjast þess að fá greidd hærri laun og eru ósáttir við að vinna undir svona miklu álagi í svona langan tíma í viku hverri. Þetta verða vissulega baráttumál okkar í komandi kjarasamningum. Við eigum öll rétt á mannsæmandi launum sem eru í samræmi við álag á vinnustað án þess að þurfa að bæta stöðugt við okkur vinnutímum.
En átt þú inni vinning hjá okkur?
Allir sem tóku þátt í könnuninni áttu möguleika á vinningi 30.000 króna gjafakorti frá sínu félagi og var dregið úr netföngum. Vinningshafar hafa þegar verið látnir vita með sér tölvupósti og eru beðnir um að vitja vinninga á skrifstofum sinna félaga.